4 leiðir til að verjast skaðsemi blárrar birtu

4 leiðir til að verjast skaðsemi blárrar birtu

Hver kannast ekki við að vera orðinn dauðþreyttur á kvöldin, en á sama tíma stjarfur og þurr í augunum eftir að vera búinn að glápa á símann, tölvuna eða spjaldtölvuna í allt kvöld. Þegar þú loks ákveður að kalla það gott, sofnar þú annaðhvort samstundis vegna ofþreytu eða liggur andvaka með smá samviskubit og kvíða fyrir yfirvofandi þreytu morgundagsins. 

Staðreyndin í báðum þessum tilfellum er að svefngæðin þín munu skerðast þessa nóttina og ástæðan er bláa birtan sem umlykur okkur í nútíma samfélagi.

 

Hvað er "blá birta"

Blá birta er ákveðin bylgjulengd ljóss sem er að finna allt um kring í umhverfinu okkar. Sólin gefur frá sér bláa birtu en hana er einnig að finna í mjög ríkum mæli í raftækjum eins og snjallsímum, sjónvörpum, tölvum og spjaldtölvum. Meira að segja öll loftljós eins og LED og flúorljós innihalda einnig bláa birtu.

Blá birta er nefnilega ekki endilega skaðleg ein og sér. Heldur skiptir máli hversu sterk bláa birtan er, hvaða aðrar bylgjulengdir eru til staðar samhliða bláu birtunni og á hvaða tímum við vörpum á okkur þessari birtu. 

Blá birta frá sólinni er okkur til dæmis mjög gagnleg. Hún er mjög sterk og hjálpar okkur að vakna á daginn. Hún gerir okkur orkumeiri, glaðlyndari og ýtir undir aukna vellíðan. Bláa birtan frá sólinni er líka jöfnuð út með öðrum ljósbylgjulengdum eins og rauðri birtu, djúprauðri, infrarauðri, fjólublárri og fleiri. Þetta kallast "full spectrum" birta, eða birta sem inniheldur alla liti á litrófinu.

Af hverju er blá birta skaðleg heilsunni okkar?

Þegar kemur að raftækjum og hefðbundnum loftljósum er hinsvegar annað uppi á tengingnum. Bláa birtan frá þessum tækjum er mjög sterk og í miklu ójafnvægi. Þetta gerir birtuna skaðlega augunum sem veldur oft augnþreytu hjá fólki og jafnvel hausverk eða mígreni í sumum tilfellum. 

Þegar við vörpum síðan þessari bláu birtu framan í okkur á kvöldin, sendum við líkamanum okkar ruglandi skilaboð sem lætur hann halda að það sé hábjartur dagur þegar það er í raun komið kvöld.
 
Rannsóknir hafa sýnt að blá birta á kvöldin getur haft raskandi áhrif á líkamsklukkuna okkar og leitt til svefntruflana, skertra svefngæða og jafnvel svefnleysi eða "insomniu". Bláa birtan heftir nefnilega útseytingu "melatonin" sem er bæði okkar megin svefnhormón og andoxunarefni líkamans. Þessi skerðing gerir það að verkum að við eigum annað hvort erfiðara með að sofna eða truflum gæði svefnsins, eða bæði.

Þessi ónáttúrulega bláa birta hefur einnig neikvæð áhrif á augnheilsuna okkar. Hún setur aukið álag á augun, ýtir undir augnþreytu og hausverki. Ákveðnar rannsóknir hafa einnig gefið til kynna að þessi bláa birta getur hraðað öldrun augnanna og ýtt undir sjónskerðingu.

Hvernig getum við verndað okkur frá blárri birtu? 

Eins frábært tól og bláa birtan getur verið þá er hún að mörgu leyti tvíeggja sverð og því mikilvægt að við beitum viðeigandi aðgerðum til að vernda okkur frá skaðlegum áhrifum hennar. 

1. Nota "blue blocking" gleraugu

Í dag er orðið vinsælt að nota svokölluð "blue blocking" gleraugu til að vernda augun og líkamann frá skaðlegum áhrifum bláu birtunnar. Með því að nota þessi gleraugu á kvöldin þegar við erum umkringd blárri birtu komum við í veg fyrir að birtan sendi líkamanum misvísandi skilaboð um að það sé dagur þegar það er komið kvöld og skerði augnheilsuna okkar.

2. Nota rauða birtu á kvöldin

Í stað þess að nota hefðbundin ljós á kvöldin rík af blárri birtu er hægt að nota rauð ljós í staðinn. Hlutir eins og rauðljósalampar, rauð næturljós og jafnvel rauðljósa panelar geta verið sniðugur kostur til að lýsa upp heimilið á kvöldin þar sem rauða birtan sem kemur frá þessum tækjum raskar ekki melatonin framleiðslu og skerðir ekki svefngæðin. 

3. Taka reglulegar pásur

Góð regla er að taka sér regluleg hlé frá raftækjum til að gefa augunum tíma til að jafna sig. Gott er að miða við að minnsta kosti 10 mínútna pásu á 30 mínútna fresti þegar þú ert að nota símann eða tölvuna á daginn. Þetta minnkar líkurnar á augnþreytu og hausverkjum sem geta fylgt langvarandi notkun þessara raftækja.

4. Nota viðeigandi stillingar á raftækjum. 

Flest raftæki í dag bjóða upp á ákveðnar stillingar til að minnka annaðhvort birtustig eða bláu birtuna sem raftækið gefur frá sér. Þá getur verið skynsamlegt að stilla símann til dæmis á "night mode" eða jafnvel sækja ákveðin forrit sem fjarlægja bláu birtuna alveg úr raftækinu. Þetta léttir bæði á álaginu á augun og tryggir þér bætt svefngæði.

Með því að tileinka þér þessi ráð getur þú notað bláa birtu á skynsamlegri máta og varist skaðlegum áhrifum hennar á heilsuna þína! 
Það þarf ekki að vera erfitt að setja heilsuna í forgang! 

Hugsum í lausnum og allir jákvæðir!

 

-

Heimildir:

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC9424753/
https://link.springer.com/article/10.1007/s40123-023-00675-3

Back to blog

Leave a comment

Please note, comments need to be approved before they are published.